Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er ár hvert um verslunarmannahelgina, að þessu sinni á Egilsstöðum 31. júlí - 3. ágúst 2025. Mótið er íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem 11 - 18 ára þátttakendur reyna fyrir sér í um 20 íþróttagreinum.
Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í íþróttafélag né æfa íþróttir til að geta tekið þátt. Þátttakendur þurfa heldur ekki að vera með lið til að geta keppt í ýmsum greinum, svo sem körfubolta eða fótbolta. Starfsmenn og sjálfboðaliðar UMFÍ sjá um að búa til lið fyrir þátttakendur sem ekki eru í liði eða koma viðkomandi í lið.
Bæði foreldrar og yngri og eldri systkini sem ekki keppa í greinum geta notið á Unglingalandsmótinu alla helgina því samhliða keppninni er boðið upp á fjölbreytta afþreytingu, leiki og skemmtun alla daga mótsins.
Mótsgjald
Mótsgjaldið er 9.900 krónur fyrir hvern þátttakanda. Innifalið í því er þátttaka í öllum keppnisgreinum mótsins, aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna alla helgina (fyrir utan rafmagn sem þarf að ganga frá greiðslu á á sama tíma og kaupum á þátttökugjaldi), aðgangur á alla viðburði, aðgangur að sundlaug Múlaþings og margt fleira.
Á Unglingalandsmóti UMFÍ keppa þátttakendur undir nöfnum íþróttahéraða landsins og því keppa skráðir þátttakendur ÍBA undir merkjum þess. Sumir sambandsaðilar UMFÍ styrkja þátttakendur á sínu svæði að hluta eða öllu leyti. ÍBA styrkir þátttakendur ÍBA um helming af þátttökugjaldinu svo þátttökugjaldið er þá einungis 4.950 kr. á keppanda. Því er mikilvægt að velja rétt íþróttahérað við skráningu.
Íþróttagreinar
Boðið verður upp á um 20 íþróttagreinar og fjölda annarra viðburða og greina sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í og þá skiptir aldurinn engu máli.
Helstu greinar sem í boði eru: Borðtennis - fimleikar - frisbígolf - frjálsar íþróttir - glíma - golf - grasblak - grashandbolti - hestaíþróttir - hjólreiðar - knattspyrna - krakkahreysti - kökuskreytingar - körfubolti - motocross - pílukast - rafíþróttir - skák - stafsetning - sund og upplestur.
Þátttakendur geta skráð sig í eins margar greinar og viðkomandi vill taka þátt í.
Mótssvæði
Á Egilsstöðum er góð íþróttaaðstaða og staðurinn því kjörinn til að halda Unglingalandsmót. Aðal mótssvæðið er í hjarta bæjarins og þar munu flestar greinar fara fram. Frjálsíþróttavöllur, knattspyrnuvellir, íþróttahús fyrir körfuboltann og sundlaug er meðal þess sem þar er staðsett.
Afþreying
Mótssvæðið verður iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Íþróttir á daginn og tónlist á kvöldin. Öll kvöldin verða tónlistarviðburðir. Fjölbreytt afþreying verður líka í boði fyrir börn yngri en 10 ára og allt ókeypis.
Opið er fyrir skráningu og stendur skráning yfir til 27.júlí næstkomandi. Sjá nánar hér
Allar nánari upplýsingar um mótið má finna inná heimasíðu UMFÍ og hvetjum við þátttakendur og fjölskyldur til að kynna sér þetta allt saman vel og vandlega
Viðburður Unglingalandsmótsins 2025 á Facebook