Samþykkt Afrekssjóðs Akureyrarbæjar

1. gr. Hlutverk
Afrekssjóður Akureyrarbæjar er sjóður til styrktar afreksíþróttastarfi ÍBA á Akureyri, til æfinga og keppni, jafnt innan lands sem erlendis.

 2. gr. Fjármagn
Tekjur sjóðsins eru sem hér segir:

  • Árlegt framlag úr bæjarsjóði samkvæmt fjárhagsáætlun fræðslu- og lýðheilsuráðs.
  • Önnur tekjuöflun, s.s. styrkir og frjáls framlög.

 3. gr. Skipan og hlutverk stjórnar
Í stjórn sjóðsins sitja fimm fulltrúar; ÍBA skipar þrjá fulltrúa og fræðslu- og lýðheilsuráð skipar tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs og er hann sjálfskipaður formaður stjórnar. Hlutverk stjórnar er að framfylgja markmiðum sjóðsins sbr. 4. gr. Framkvæmdarstjóri ÍBA og deildarstjóri íþróttamála Akureyrarbæjar starfa með stjórn sjóðsins, hafa eftirlit með fjárreiðum sjóðsins og hafa tillögurétt á fundum stjórnar sjóðsins. Starfstímabil stjórnar er samhliða ársþingum ÍBA eða tvö ár í senn, er launuð nefndarseta skv. nefndarlaunum Akureyrarbæjar og greiðist af íþróttadeild Akureyrarbæjar.

4. gr. Markmið
Markmið sjóðsins er að veita styrki og viðurkenningar í eftirtöldum flokkum:

  1. Afreksíþróttafólk
  2. Afreksefni
  3. Ferðakostnaður vegna landsliðskeppnisferða.
  4. Íslands- og bikarmeistarar í meistaraflokkum og þátttaka í Evrópukeppnum.

 1. Afreksíþróttafólk
Afrekssjóður styrkir með eingreiðslu það afreksíþróttafólk sem eru í hópi fimm efstu í kjöri til Íþróttakarls Akureyrar og Íþróttakonu Akureyrar ár hvert, sbr. reglur ÍBA um kjör Íþróttakarls og Íþróttakonu Akureyrar.

Tilnefningar frá aðildarfélögunum skulu berast á rafrænu eyðublaði, sem nálgast má á heimasíðu ÍBA, fyrir 1. desember ár hvert.

 2. Afreksefni
Afrekssjóður styrkir ungmenni, á sextánda aldursári eða eldri, sem talin eru með markvissri þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu á landsvísu.
Umsóknir skulu berast á rafrænu eyðublaði, sem nálgast má á heimasíðu ÍBA, fyrir 1. desember ár hvert.

3. Ferðakostnaður vegna landsliðskeppnisferða
Afreksíþróttafólk og afreksefni er styrkt vegna ferðakostnaðar landsliðskeppnisferða erlendis á vegum sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), að hámarki tvær ferðir á ári. 
Umsóknir skulu berast á rafrænu eyðublaði sem nálgast má á heimasíðu ÍBA.

4. Íslands- og bikarmeistarar í meistaraflokkum og þátttaka í Evrópukeppnum.
Styrkur er veittur til þeirra félaga sem ná Íslands- eða bikarmeistaratitli í meistaraflokki í hópíþrótt (m.v. 10 liðsmenn eða fleiri á leikskýrslu). Einungis er um að ræða lið sem eru þátttakendur í efstu deild innan sérsambanda ÍSÍ. Þau lið sem hafa áunnið sér rétt til þátttöku í Evrópukeppnum félagsliða eiga möguleika á að hljóta fjárhagslegan stuðning til þátttöku í slíkum verkefnum. Styrkupphæðir skiptast í tvo flokka eftir fjölda liða í keppni til Íslandsmeistaratitils. Bikarmeistaratitill eða þátttaka í Evrópukeppni gefur helming af þeirri styrkupphæð sem Íslandsmeistaratitill gefur í viðkomandi grein. 
Styrkupphæðir skiptast eftir eftirfarandi flokkun:

  • A-styrkur: styrkur til liðs sem tekur þátt í keppni þar sem 8 lið eða fleiri taka þátt.
  • B-styrkur: styrkur til liðs sem tekur þátt í keppni þar sem 7 lið eða færri taka þátt.

Umsókn um styrkveitingu þarf að berast frá aðildarfélagi, með staðfestingu á titli eða þátttöku í Evrópukeppni, til skrifstofu ÍBA fyrir 1. nóvember ár hvert.

5. gr. Skilyrði
Allir þeir íþróttamenn sem þiggja styrk úr afrekssjóði skulu framfylgja siðareglum og hegðunarviðmiðum ÍBA um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan, sem og reglum Lyfjaeftirlit Íslands um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit. Gerist styrkþegi brotlegur við þessar reglur getur stjórn sjóðsins krafist endurgreiðslu styrksins.
Einungis afreksíþróttafólk og afreksefni sem iðka íþrótt sína hjá aðildarfélögum ÍBA geta átt rétt til styrkveitinga. 
Stjórn afrekssjóðs getur farið fram á það við styrkþega að hann komi fram á vegum ÍBA og skili inn skýrslum um hvernig styrkjum úr sjóðnum var varið.

6. gr. Úthlutun
Stjórn afrekssjóðs úthlutar styrkjum úr sjóðnum einu sinni á ári að undanskyldum styrkjum vegna keppnisferða með landsliðum. Ferðastyrkur er greiddur út þegar umsókn hefur verið yfirfarin og samþykkt. Stjórn sjóðsins skal eftir fremsta megni gæta jafnræðis milli kvenna og karla við úthlutun styrkja. Styrkir afrekssjóðs eru greiddir út til styrkþega.

7. gr. Breytingar
Verði breytingar á framlagi bæjarsjóðs til afrekssjóðs sbr. 2. gr. skal stjórn afrekssjóðs endurskoða þessa samþykkt með tilliti til styrkupphæða.   

8. gr. Gildistími
Reglur þessar eru endurskoðaðar í byrjun hvers starfstímabils stjórnar og taka gildi þegar bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt breytingar sem kunna að verða. 

Samþykkt í stjórn Afrekssjóðs 13. maí 2020
Samþykkt í stjórn ÍBA 5. október 2020
Samþykkt í frístundaráði 10. júní 2020