Lög Íþróttabandalags Akureyrar

1. gr.

Íþróttabandalag Akureyrar, skammstafað ÍBA, er héraðssamband íþróttafélaga á Akureyri.
Það starfar samkvæmt lögum ÍSÍ, UMFÍ og íþróttalögum nr. 64 frá 1998.

 

2. gr.

Hlutverk ÍBA er:

 1. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ og UMFÍ.
 2. Að annast samstarf um íþróttamál við bæjaryfirvöld.
 3. Að varðveita og skipta á milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt.
 4. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta á vegum ÍSÍ eða UMFÍ í héraði.
 5. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðsins.
 6. Að staðfesta lög aðildarfélaga, halda utan um staðfest lög félaga og skila yfirliti til ÍSÍ yfir lög aðildarfélaga í lok hvers árs.
 7. Að tilkynna ÍSÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun/aflagningu félaga og deilda.
 8. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild.  Í því skyni skal ÍBA hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn ÍBA tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir félagið og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðildarfélags.  Aðildarfélag getur krafist þess að bókhaldsgögn fari eingöngu um hendur löggilts endurskoðanda.
 9. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á réttum tíma skal stjórn ÍBA ef þörf krefur boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
 10. Að skipa nefnd sem sér um framkvæmd á kosningu á Íþróttamanni Akureyrar.

 

3. gr.

Öll félög á Akureyri sem hafa íþróttir að megin markmiði eiga rétt á að gerast aðilar að ÍBA, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem á hverjum tíma gilda í lögum ÍBA, ÍSÍ og UMFÍ.

 

4. gr.

Óski félag eftir að gerast aðili að ÍBA, skal það senda stjórn þess umsókn sína ásamt lögum félagsins, skýrslu um stofndag og ár, stjórn þess og tölu félagsmanna.

Uppfylli félagið inntökuskilyrði þessara laga, öðlast það réttindi í bandalaginu eftir að aðild þess hefur verið samþykkt af stjórn ÍBA, en staðfesta skal inngöngu þess á ársþingi.

Ennfremur öðlast félagið keppnisrétt hjá ÍSÍ eftir að sambandið hefur staðfest inntöku í ÍBA. Til þess að öðlast réttindi sem aðildarfélag í ÍBA þarf félagið að senda inn fjárhagsáætlanir og halda aðalfundi í samræmi við lög þess.  Aðlögunartími til þess að öðlast slík réttindi skal vera 3 ár.

 

 

5. gr.

Aðildarfélög skulu senda ársskýrslu til ÍBA fyrir 1. mars og starfsskýrslu til ÍSÍ og UMFÍ fyrir 15. apríl ár hvert. Félög skulu í ársskýrslu tilgreina aðalstjórn, stjórn deilda
og nefnda ásamt sögulegu yfirliti yfir starfið.  Ársreikningi aðildarfélags skal skila til ÍBA fyrir 31. maí ár hvert.

 

6. gr.

Félög sem ekki hafa sent tilskilin gögn sbr. 5.gr. missa atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi ÍBA og missa einnig rétt til að tilnefna fulltrúa á þing ÍSÍ og UMFÍ. Komi til þessa er stjórn ÍBA heimilt að fella niður styrk til viðkomandi aðila.

Líði annað ár svo að félag geri ekki skil á skýrslum og reikningum, skal næsta ársþing taka ákvörðun um hvort félaginu skuli vikið úr ÍBA.

 

7. gr.

Félag getur misst öll réttindi sín innan ÍBA um stundarsakir ef það brýtur landslög um íþróttamál, lög og reglur eða ákvæði ÍBA, lög sambanda sem bandalagið er meðlimur í svo og leikreglur ÍSÍ og öðlast þau ekki aftur fyrr en það hefur fullnægt settum refsiákvæðum. Haldi félag ekki aðalfund á réttum tíma og standi Bandalaginu skil á starfsskýrslu og ársreikningi skal aðildarfélagi veitt skrifleg áminning og verði ekki úr bætt innan eins mánaðar skal stjórn ÍBA tilkynna félaginu að því hafi verið vikið úr Bandalaginu.

 

8. gr.

Leggi félag innan ÍBA niður starfsemi, skulu eigur þess renna til ÍBA ( eða bæjarsjóðs Akureyrar hafi félagið hlotið framkvæmdarstyrk frá Akureyrarbæ).

 

9. gr.

Þing ÍBA skal halda annað hvert ár, eigi síðar en 15. apríl, og fer það með æðstu stjórn ÍBA.

Átta vikum fyrir þing skal ÍBA tilnefna 3. manna uppstillinganefnd.

Þingboð ásamt tillögu um lagabreytingar ef einhverjar eru skal senda aðildarfélögunum
skriflega með 4 vikna fyrirvara.

Þau mál sem aðilar ÍBA óska eftir að verði á dagskrá skulu berast stjórn bandalagsins í síðasta lagi tveimur vikum fyrir þing.

Viku fyrir þing skal aðilum send ársskýrsla, endurskoðaðir reikningar, kjörbréf og skrá yfir þann fulltrúafjölda sem heimilt er að senda á ársþingið.  Ennfremur þær tillögur sem ákveðið hefur verið að leggja fyrir þingið.

Ársþing ÍBA er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað.

 

10. gr.

Hvert aðildarfélag hefur rétt á að senda fulltrúa á þing ÍBA. Skal tala fulltrúa miðuð við fjölda iðkana skv. síðustu starfsskýrslu þannig að félag með:

1 – 100            félagsmenn hljóti 2 fulltrúa.

101 – 250        félagsmenn hljóti 3 fulltrúa.

251 – 400        félagsmenn hljóti 4 fulltrúa.

401 -550          félagsmenn hljóti 5 fulltrúa.

551-700           félagsmenn hljóti 6 fulltrúa.

701 og fleiri     félagsmenn hljóti 7 fulltrúa.

 

11. gr.

Á þingi ÍBA eiga sæti með atkvæðisrétti fulltrúar þeir sem aðildarfélög ÍBA hafa kjörið til þings skv. 10 gr. sbr þó 6 og 7 gr. 

Fulltrúar aðildarfélaga innan ÍBA hafa einir atkvæðisrétt eða varamenn þeirra. Enginn fulltrúi má fara með meira en eitt atkvæði. Fulltrúi getur því aðeins farið með atkvæði, að hann hafi lagt fram kjörbréf sitt og að það hafi verið staðfest af þinginu.

Rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti hafa auk stjórnar ÍBA, framkvæmdastjórn ÍSÍ og UMFÍ, bæjarstjóri, nefndarmenn í fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrarbæjar, forstöðumaður íþróttamála Akureyrarbæjar og framkvæmdastjóri ÍBA.

 

12. gr.

Dagskrá þingsins skal vera þessi:

 1. Þingsetning.
 2. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
 3. Kosning þingforseta, þingritara og varamanna þeirra.
 4. Ársskýrslur stjórnar lagðar fram og ræddar.
 5. Ársreikningar lagðir fram, ræddir og atkvæði greidd um þá.
 6. Fyrri umræða um lagabreytingar sem liggja fyrir.
 7. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun.
 8. Ræddar tillögur og mál sem fyrir liggja.
 9. Kosið í allsherjarnefnd, fjárhagsnefnd og laganefnd, 3 menn í hverja nefnd.  ÞINGHLÉ að því loknu.
 10. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
 11. Kosningar og tilnefningar.

a) Kosinn formaður ÍBA.

b) Kosnir 4 menn í stjórn ÍBA og 2 til vara.

c) Kosning 2 skoðunarmanna.

d) Kosning í nefndir, er þingið ákveður.

e) Kosning fulltrúa á þing ÍSÍ og UMFÍ.

    12. Önnur mál.

    13. Þingslit.

 Þingið skal standa í einn dag nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nefndir starfi í þinghléi. Allar kosningar skulu vera skriflegar séu fleiri tilnefndir en kjósa skal. Verði atkvæði jöfn skal varpa hlutkesti.

 

13. gr.

Aukaþing skal halda, ef nauðsyn krefur og eða 2/3 hluta aðildarfélaga óskar þess.
Allur boðunar og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt.

Á aukaþingi má ekki gera laga-eða reglnabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðbirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leiti gilda sömu reglur og um venjulegt ársþing.

 

14. gr.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í málum sem tilkynnt hafa verið í þingboði, hvort sem er á reglulegu ársþingi eða aukaþingi. Til að taka megi mál sem ekki er getið í fundarboði á dagskrá þingsins þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

 

15. gr.

 1. Stjórn ÍBA skiptir með sér verkum og kýs varaformann, gjaldkera og ritara. Formenn einstakra félaga eða sérsambanda má ekki kjósa í stjórn.  Framkvæmdastjóra aðildarfélaga má ekki kjósa í stjórn.
 2. Starfstími stjórnar ÍBA er 2 ár.
 3. Stjórn ÍBA setur sér starfsreglur.
 4. Stjórn ÍBA fer með umboð í málefnum ÍBA milli þinga og skal sjá um allar framkvæmdir þess og vinna að málum þess.
 5. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir innan eða utan sinna vébanda til að sjá um og framkvæma viss mál ÍBA.
 6. Formaður skal boða stjórnarfundi eftir því sem þurfa þykir.  Skylt er að halda stjórnarfundi ef einhver stjórnarmaður óskar þess.
 7. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði eru jöfn.

 

16 gr.

Halda skal fundi með formönnum aðildarfélaga a.m.k. tvisvar á ári.  Á formannafundi gerir stjórn ÍBA grein fyrir starfsemi sinni frá því að síðasti formannafundur var haldinn.  Auk þess skal taka fyrir á formannafundi önnur mál, sem stjórnin eða aðildarfélögin telja nauðsynlegt að ræða.  Stjórn ÍBA boðar til formannafundar með a.m.k. viku fyrirvara ásamt dagskrá.

 

 

17. gr.

Dómstólar ÍSÍ skulu hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar. Nánar er fjallað um þá í lögum um dómstóla íþrótta- og Olympíusambands Íslands.

 

Þannig samþykkt á 65. ársþingi ÍBA 27. apríl 2022.