Hegðunarviðmið fyrir þjálfara

Komdu fram af virðingu

 • Komdu eins fram við alla iðkendur óháð aldri, kyni, kynþætti, kynhneigð, fötlun, stjórnmálaskoðunum, uppruna, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.
 • Berðu virðingu fyrir einstaklingnum óháð getu eða metnaði til að ná árangri.
 • Berðu virðingu fyrir mótherjum, foreldrum/forsjáraðilum, dómurum, sjálfboðaliðum, þjálfurum og öðru starfsfólki og stuðlaðu að því að iðkendur geri slíkt hið sama.

Vertu heiðarleg(ur)

 • Farðu eftir reglum íþróttagreinarinnar, haltu á lofti heiðarleika (fair play) og hvettu iðkendur til að gera það líka.
 • Stuðlaðu að jákvæðu og íþróttalegu umhverfi sem er laust við vímuefni og ólögleg efni samkvæmt Lyfjaeftirliti Íslands.
 • Fáðu skriflegt samþykki iðkanda/foreldra/forsjáraðila ef þú þarft að gefa upp trúnaðarupplýsingar.
 • Taktu aldrei þátt í veðmálum, fjárhættuspilum eða viðskiptum í tengslum við íþróttaviðburði sem þú getur haft áhrif á.

Vertu góð fyrirmynd bæði innan sem utan vallar

 • Allir iðkendur eiga skilið að fá athygli og jöfn tækifæri.
 • Leggðu þig fram þannig að iðkendur fái sem mest út úr æfingunni.
 • Vertu sanngjarn, tillitssamur og heiðarlegur.
 • Ýttu undir heilbrigðan lífsstíl með góðu fordæmi.
 • Vertu meðvitaður um starf þitt sem þjálfari utan skipulagðra æfinga og keppni.

Berðu virðingu fyrir þjálfarastarfinu

 • Gerðu kröfur til þín varðandi málfar, klæðnað, hegðun, stundvísi, undirbúning og kennslu/þjálfun.
 • Sýndu íþróttinni og félaginu virðingu og virtu reglur.
 • Leggðu metnað þinn í starfið og leitaðu leiða til að auka við þekkingu þína.
 • Skipuleggðu starfið með tilliti til getu og þroska iðkenda.
 • Vertu óhræddur við að leita eftir samstarfi við aðra þjálfara eða sérfræðinga.
 • Taktu leiðtogahlutverk þitt alvarlega og nýttu stöðu þína á uppbyggilegan hátt.
 • Haltu iðkendum og aðstandendum upplýstum um þjálfunina.

Það sem er iðkandanum fyrir bestu

 • Gættu að því að umhverfi og aðbúnaður sé í lagi og hæfi aldri og þroska iðkenda.
 • Settu heilsu og heilbrigði iðkenda á oddinn og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað getur heilbrigði þeirra.
 • Hugaðu að einstaklingum sem meiðast og sýndu þeim áhuga.
 • Varastu að setja þig í þá stöðu að vera einn með iðkanda.

Ofbeldi er ekki liðið í íþróttahreyfingunni!

 • Vertu vakandi fyrir öllu ofbeldi, líkamlegu, kynferðislegu og andlegu.
 • Misnotaðu ekki stöðu þína og vald með kynferðislegum tilburðum eða öðrum hætti.
 • Forðastu líkamlega snertingu við iðkendur nema þar sem hún er nauðsynlegur hluti þjálfunarinnar.
 • Þjálfara/félagi ber skylda til að tilkynna til viðeigandi yfirvalda ef ljóst þykir að iðkandi hafi verið vanræktur, honum misþyrmt eða búi við aðstæður sem geta lagt heilsu hans og þroska í hættu.