Þakklæti er Þórsurum efst í huga á 100 ára afmælinu.Íþróttafélagið Þór fagnaði í gær 100 ára afmæli félagsins með glæsilegri afmælishátíð sem fram fór á Þórssvæðinu í blíðviðri, glampandi sól og svölum norðan andvara. Mörg þúsund manns mættu á Þórssvæðið eftir hádegi í gær og í gærkvöld til að fagna aldarafmælinu, njóta góðra skemmtiatriða og leiktækja, hitta mann og annan, sýna sig og sjá aðra. Við hátíðarkvöldverð sem fram fór í Íþróttahúsi Glerárskóla heiðraði Íþróttafélagið Þór fjölmarga félagsmenn með veitingu silfur- og gullmerkja fyrir áralöng og óeigingjörn störf í þágu félagsins. Upplýsingar um gull- og silfurmerkjaveitingar má finna á heimasíðu Þórs, thorsport.is. Þá var Bjarni Fannberg Jónasson, fyrrverandi formaður Körfuknattleiksdeildar Þórs, gerður að heiðursfélaga.Við hátíðarhöldin frumflutti Páll Rósinkrans nýtt Þórslag og texta eftir Bjarna Hafþór Helgason, Ég er Þórsari, sem samið var sérstaklega í tilefni af 100 ára afmælinu. Textinn tengir saman frumkvöðlana sem stofnuðu Þór og þá dásamlegu tilfinningu sem það er í dag að vera Þórsari. Árni Óðinsson, formaður aðalstjórnar Þórs, segir hátíðina hafa tekist í alla staði nánast fullkomlega. „Það hefur kostað margar vinnustundir að undirbúa þessa hátíð, margir hafa lagt hönd á plóg og unnið sem einn maður, enda er það ekki á hverjum degi sem íþróttafélag verður 100 ára. Við tókum snemma þá ákvörðun að gera hátíðarhöldin vegleg og opin öllum sem vildu samfagna okkur. Ég er himinlifandi með hvernig til tókst, við vorum heppin með veður og ég er þakklátur öllu því góða fólki sem samfagnaði okkur við þessi merku tímamót. Ég er þakklátur þeim fjölmörgu Þórsurum sem komu að skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar og gerðu þennan dag ógleymanlegan og síðast en ekki síst er ég þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þessari stóru fjölskyldu,“ segir Árni.Íþróttafélagið Þór vil koma á framfæri þakklæti til allra sem hlut áttu að máli, sérstaklega starfsfólks og stjórna félagsins, sjálfboðaliðum úr öllum deildum og síðast en ekki síst öllum þeim fjölda gesta sem gladdist með Þórsurum við þessi merku tímamót. Félagið naut einnig öflugs stuðnings og samstarfs við fjölmörg fyrirtæki og þar ber að nefna Félag Sauðfjárbænda í Eyjafirði, Meistarafélag kjötiðnaðarmana, Vífilfell, Sölufélag Austur-Húnvetninga og Vífilfell, ásamt Viðburðastofu Norðurlands, sem kom að skipulagningu hátíðarinnar í samstarfi við Þórsara.