Þórsarar leika sinn fyrsta heimaleik í Evrópukeppninni í fótbolta

Það verður stór stund á Þórsvellinum í kvöld, þegar 1. deildar lið Þórs í knattspyrnu mætir írska úrvalsdeildarliðinu Bohemian FC í forkeppni Evrópudeildar UFEA. Liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Dublin í síðustu viku, í fyrsta Evrópuleik Þórs frá upphafi.  Leikurinn í kvöld, sem hefst kl. 18.30, er því fyrsti heimaleikur Þórs í Evrópukeppni og ríkir mikil eftirvænting meðal stuðningsmanna félagsins. Sveinn Elías Jónsson fyrirliði Þórs segir leikurinn í kvöld leggist mjög vel í sig, sem og aðra leikmenn liðsins. “Við fórum út með það sem fyrsta markmið að halda markinu hreinu, það gekk eftir, sem gerir það að verkum að þetta getur orðið spennandi leikur hér heima. Við vitum líka betur hversu öflugt lið þetta er en fyrir fyrri leikinn rendum við nokkuð blint í sjóinn. Þetta er samt ekkert sterkara lið en við vorum að spila við í fyrrasumar og á góðum degi eigum við að geta unnið það. En ef við gleymum okkur, er þetta samt lið sem getur verið fljótt að refsa. Þannig að við þurfum allir að eiga toppleik og okkur þarf að ganga betur við markaskorun en í undanförnum leikjum. Þá gæti þetta dottið okkar megin.”