Þórir Tryggvason heiðraður með gullmerki ÍBA á formannafundi ÍBA þann 8.júní 2023

Þórir Tryggvason ljósmyndari ásamt formanni ÍBA Birnu Baldursdóttur
Þórir Tryggvason ljósmyndari ásamt formanni ÍBA Birnu Baldursdóttur

Formannafundur ÍBA var haldinn í Teríunni í Íþróttahöllinni á Akureyri 8.júní 2023 þar sem saman komu formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaga ÍBA ásamt stjórn ÍBA, fulltrúum fræðslu- og lýðheilsuráðs og forstöðumanni íþróttamála á Akureyri. Við fengum til okkar nokkra góða gesti sem fræddu okkur um áhugaverð málefni og verkefni sem framundan eru og loks var Þórir Tryggvason ljósmyndari heiðraður fyrir hans óeigingjarna starf sem ljósmyndari í þágu íþrótta á svæðinu. 

Formaður ÍBA, Birna Baldursdóttir, ræddi í ávarpi sínu um samvinnu íþróttafélaga á svæðinu og hvort ekki væri hægt að hjálpast meira að. „Ég veit að sjálfboðaliðar eru einn af mikilvægasta hlekknum í okkar íþróttastarfsemi og því algjörlega ómissandi til að allt gangi vel. Við erum öll íþróttaeldhugar og þurfum að stíga myndarleg skref í sömu átt enda erum við miklu kraftmeiri og sterkari þegar við vinnum öll saman og fyrir mér er orðið SAMVINNA töfraorð“ sagði Birna meðal annars í ræðu sinni sem eru sannarlega orð að sönnu.

Á stjórnarfundi ÍBA í byrjun maí var ákveðið að heiðra Þóri Tryggvason ljósmyndara með gullmerki ÍBA á næsta formannafundi fyrir hans óeigingjarna og ómetanlega starf í þágu íþrótta og í kringum íþróttaviðburði á svæðinu. Hann hefur tekið myndir af flestum okkar íþróttaviðburðum síðustu 25 árin.

Þórir Tryggvason fæddist á Akureyri þann 29.apríl árið 1956. Sem barn æfði Þórir fótbolta og handbolta með Þór enda var hann fæddur inn í Þórsfjölskyldu þar sem móðuramma hans var ein af stofnfélögum Þórs ung að árum. Seinna meir eða á unglingsárunum fiktaði hann í hestamennsku og gerðist félagi í hestamannafélaginu Létti. Þar næst kviknaði bílaáhuginn og varð hann félagsmaður í Bílaklúbbi Akureyrar og starfaði með honum fyrstu ár klúbbsins. 

Þegar börn Þóris fóru að stunda íþróttir með KA þá fylgdi hann þeim vel eftir og kom meðal annars að stofnun fyrsta unglingaráðs handknattleiksdeildar KA ásamt fleirum og var í því um árabil.

Ljósmyndaáhuginn kviknaði fljótt og segja má að Þorleifur Ananíasson,Leibbi, hafi startað myndagleðinni hjá Þóri en hann vissi að hann væri að taka myndir fyrir unglingastarfið í handboltanum hjá KA og bað hann að mynda fyrir sig íþróttir til að setja í blaðið með sinni umfjöllun. Fyrsta íþróttamynd Þóris birtist svo í Vikudegi, sem nú er Vikublaðið, vorið 1998. Myndin var tekin á Evrópuleik sem KA lék hér heima. Hann hefur einnig tekið myndir af allskonar áhugamálum og á t.d. myndir frá öllum 17. júní bílasýningum frá upphafi.

Þórir hefur verið að mynda í um 25 ár og það á allskonar íþróttaviðburðum sem fram hafa farið á Akureyri og er fjöldi mynda hans orðinn ansi stór eða í kringum 1,5 milljónir talsins sem er ekkert smáræði.

ÍBA óskar Þóri innilega til hamingju með gullmerkið og hlakkar til nánari samstarfs í framtíðinni.

Á formannafundinum kynnti Valdimar Smári Gunnarsson verkefnastjóri verkefnisins „Allir með“ verkefnið sem snýr að því að hvetja fleiri fatlaða til að æfa íþróttir. Einnig voru með okkar á Teams tveir fulltrúar íþróttafélaga iðkenda með fötlun sem kynntu íþróttastarf sitt. Knattspyrnukonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sér um verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ á vegum KSÍ og þjálfar knattspyrnu hjá Íþróttafélaginu Ösp og Stjörnunni og Rakel Másdóttir frá fimleikafélaginu Gerplu. Öll eru þau sammála um mikilvægi þess að fjölga tækifærum fyrir unga fatlaða einstaklinga innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

Einnig ávarpaði fundinn Vésteinn Hafsteinsson sem er nýráðinn afreksstjóri ÍSÍ og leiðir einnig starfshóp Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Vésteinn ræddi meðal annars um kostnaðarþátttöku keppenda og fjölskyldna þeirra í landsliðsstarfi og hversu mikilvægt það er að yfirfara og breyta umgjörð, löggjöf, bættri aðstöðu og öðru sem þarf til að stuðningur við afreksíþróttafólk á Íslandi verði eins og best verður á kosið þannig að afreksíþróttafólkið okkar standi jafnt og keppinautar þeirra á alþjóðavísu. Við hlökkum mikið til að fylgjast með verkefninu á næstu árum og þeirri mikilvægu vinnu sem Vésteinn og starfshópurinn eru að vinna að.

ÍBA þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir að koma og fyrirlesurum fyrir fræðandi og uppbyggjandi erindi.