ÞAÐ GETA EKKI ALLIR ORÐIÐ GÓÐIR ÍÞRÓTTAMENN

Pálmar Ragnarsson körfuboltaþjálfari
Pálmar Ragnarsson körfuboltaþjálfari

Flest íþróttafólk á sér þann draum að verða bestir í sinni íþrótt og setja sér það markmið í æsku að verða atvinnumaður í íþróttinni sem þau elska. Því miður eru margir iðkendur sem ná ekki að upplifa sinn draum eða ná ekki sínu markmiði og hvað er þá til ráða?

Pálmar Ragnarsson setti sér það markmið í æsku að verða besti körfuboltamaður á Íslandi og atvinnumaður í greininni. Hann byrjaði ungur að æfa körfubolta og varð bæði bikar- og Íslandsmeistari með Fjölni. Hann fór líka með liðinu úr 1. deild upp í Úrvalsdeild og var það í fyrsta sinn sem félagið komst í deildina. Hann var í 10. bekk grunnskóla þegar hann var valinn í landslið.

Ferill Pálmars var á góðri siglingu þegar hann datt og meiddist á hné á æfingu. Hann var 19 ára. Þremur aðgerðum síðar sagði læknir við Pálmar: „Ef þú ætlar að geta gengið þegar þú verður eldri þá er ekki gott að þú spilir körfubolta.“

Pálmar segir draum sinn hafa hrunið.

„Þarna var ég tvítugur með draum. Líf mitt hafði snúist um körfubolta. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. En þá var hringt í mig og ég spurður að því hvort ég vilji þjálfa einn flokk í körfubolta. Ég hafði engan áhuga á því og sagði það útilokað.  Líf mitt hafði snúist um körfubolta. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera.“

Pálmar lét á endanum undan. Honum fannst gaman að þjálfa og hefur nú gert það í 12 ár.

En hvernig breytti hann markmiði sínu?

„Ég fer á hverja einustu æfingu með það í huga að hafa gaman“

„Ég ákvað þá að verða góður þjálfari. Ég fer á hverja einustu æfingu með það í huga að hafa gaman og að það verði gaman fyrir krakkana. Draumur minn um það að vera góður leikmaður breyttist í það að verða góður þjálfari.“

Pálmar hélt fyrirlestur um feril sinn í körfubolta og breytt markmið á ráðstefnunni Sýnum karakter – Allir með, sjá link hér fyrir neðan hvað hann hafði að segja um breytt markmið og að það að vera besti íþróttamaðurinn er ekki eina sem skiptir máli. Þú getur líka verið besti þjálfarinn, besti stjórnarmaðurinn, besti stuðningsmaðurinn o.fl. ef íþróttadraumurinn klikkar.

Fyrirlestur Pálmars