Stephany Mayor og Tryggvi Snær Íþróttamenn Akureyrar ársins 2017

Í Hofi fyrr í  kvöld var lýst kjöri til íþróttamanns og íþróttakonu Akureyrar 2017. Alls hlutu 26 íþróttakonur og menn úr röðum aðildarfélaga ÍBA atkvæði til kjörsins. Á athöfninni í kvöld veitti Frístundaráð viðurkenningar fyrir Íslandsmeistatatitla og sérstakar heiðursviðurkenningar. Afrekssjóður Akureyrarbæjar veitti aðildarfélögum styrki fyrir landsliðsmenn.

Stephany Mayor knattspyrnukona úr Þór/KA var kjörin íþróttakona Akureyrar 2017. Stephany var algjör lykilmaður í liði Þórs/KA síðastliðið sumar sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum í haust. Hún nálgast leikinn af mikilli fagmennsku, er útsjónarsamur leikmaður og býr yfir miklum leikskilningi, mikilli tækni og er í alla staði frábær íþróttamaður, innan vallar sem utan. Stephany var í byrjunarliði Þórs/KA í öllum leikjum liðsins í Pepsi-deildinni og Borgunarbikarnum, en auk þess spilaði hún fjóra leiki í Lengjubikarnum og skoraði þar tvö mörk. Stephany var valin best leikmanna í Pepsi-deildinni í lok sumars ásamt því að vera markahæsti leikamaður deildarinnar.
Í 2. sæti var svo Bryndís Rún Hansen sundkona úr Óðni og í 3. sæti júdókonan Anna Soffía Víkingsdóttir úr Draupni.

Tryggvi Snær Hlinason körfuknattleiksmaður var kjörinn Íþróttamaður Akureyarar 2017. Tryggvi var lykilmaður í úrvalsdeildarliði Þórs sem endaði í 8. sæti úrvalsdeildar vorið 2017 og komst þar með í úrslitakeppni þar sem félagið féll út á móti KR-ingum sem svo hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum. Á árinu tók Tryggvi Snær einnig þátt í landsliðsverkefnum bæði með A-landsliði og U20 ára landsliði. Árangur hans með U20 landsliðinu var sérlega glæsilegur. Liðið keppti í A-deild Evrópumótsins ásamt öllum sterkustu landsliðum álfunnar og endaði í 8. sæti. Tryggvi Snær var valinn í fimm manna úrvalslið keppninnar og var jafnframt framlagshæstur allra leikmanna á mótinu. Hann skoraði að meðaltali 16,1 stig, tók 11,6 fráköst og var með 3,1 varið skot í leik. Í haust gekk Tryggvi Snær svo til liðs við Spánarmeistara Valencia og hóf þar með atvinnumannsferil sinn. Það var systir Tryggva Elín Heiða Hlinadóttir sem tók við verðlaununum fyrir hans hönd. Í 2. sæti var Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður úr KFA og í 3. sæti var Alexander Heiðarsson júdómaður úr Draupni.

Heiðursviðurkenningar Frístundaráðs hlutu þau Hrefna Hjálmarsdóttir, fyrir ötult starf í þágu skátahreyfingarinnar og Ágúst Herbert Guðmundsson fyrir mikið og óeigingjarn starf í körfuboltaíþróttinni.

Frístundaráð veitti viðurkenningar til 16 aðildarfélaga vegna 243 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjópur veitti 13 aðildarfélögum samtals rúmar 2 milljónir í styrki vegna 114 landsliðsmanna árið 2017.

 

Íþróttamaður 2017