Samherji styrkir samfélagsverkefni um 75 milljónir króna

Miðvikudagur 28. desember 2011

Samherji hf. boðaði til móttöku síðdegis í dag í KA-heimilinu á Akureyri og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu upp á 75 milljónir króna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var viðstaddur afhendinguna og flutti ræðu. Hann er einnig verndari sérstaks rannsóknaverkefnis sem tengist neðansjávarstrýtunum á botni Eyjafjarðar en það verkefni var kynnt í móttökunni og hlaut styrk frá Samherja.

Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er fjórða árið í röð sem Samherji afhendir slíka styrki. Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, færði forseta Íslands sérstakar þakkir í setningarávarpi sínu. ‘‘Ég vil þakka þér fyrir að koma til þessa hófs okkar ásamt eiginkonu þinni. Með því sýnið þið okkur mikla virðingu – þið sýnið undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar mikla virðingu og ennfremur starfsfólki fyrirtækjanna tveggja, Samherja og ÚA.’’

Liðsheildin er lykillinn að góðum árangri Samherja

‘‘Úrræðagott starfsfólk hefur á þessu ári tekist á við krefjandi verkefni og leyst úr þeim með dugnaði og samviskusemi á farsælan hátt. Ég hef sagt það áður að mitt lán liggur í því að hafa að baki mér þennan þétta og trausta hóp en það er liðsheildin sem er lykillinn að góðum árangri Samherja – ekki bara á þessu ári, heldur einnig á undangengum árum eða allt frá því að félagið var stofnað,’’ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, m.a. í ræðu sinni.

Hann sagði að Samherji hafi frá upphafi verið hluti þessa samfélags og því fylgi mikil ábyrgð. ‘‘Það er stefna okkar að láta starfsmenn félagsins og samfélagið í kringum okkur njóta þess þegar vel gengur. Liður í því var að greiða sérhverjum starfsmanni í landi 360 þúsund krónur í launauppbót á árinu, umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningnum. Annar liður í þeirri stefnu okkar er að úthluta þessum styrkjum hér í dag,’’ sagði hann..

 Ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi 

Þáttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til. Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnissferðir þeirra veturinn 2011-2012 í þeim íþróttagreinum sem félögin hafa innan vébanda sinna. Til að tryggja að þessir fjármunir fari í að efla barna- og unglingastarf og vinna með íþróttafélögunum að útfærslunni er starfandi þriggja manna hópur. Hann skipa þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Árni Óðinsson og Jóhannes Bjarnason. Auk ýmissa íþrótta- og æskulýðsfélaga hlutu styrki; endurhæfingardeildin á Kristnesi, HL-stöðin á Akureyri og Framfarafélagið Stígandi. Nánar verður fjallað um styrkveitingarnar í Vikudegi á morgun fimmtudag.