Íþróttakarl Akureyrar 2023 í heimsókn

Þann 31. janúar fór fram Íþróttahátíð Akureyrar í Hofi þar sem Íþróttakona og Íþróttakarl Akureyrar voru krýnd fyrir árið 2023. Eins og vonandi hefur ekki farið framhjá neinum var Sandra María Jessen knattspyrnukona hjá Þór/KA kosin íþróttakona Akureyrar 2023 og Baldvin Þór Magnússon hlaupari hjá UFA kosinn íþróttakarl Akureyrar 2023.

Baldvin Þór er búsettur í Bretlandi og gat því miður ekki tekið á móti verðlaununum þennan dag þar sem hann var staddur í æfingabúðum í Kenýa með bestu hlaupurum heims. Baldvin kom til Íslands í byrjun febrúar þar sem hann hóf stutt innanhússæfingatímabil sem var þá að klárast þar til hann tók þátt í Reykjavíkurleikunum (RIG) og gerði sér lítið fyrir og náði bæði sigri og sló 44 ára gamalt Íslandsmet í 1500m hlaupi karla og hljóp á 3:41,05 mín

Baldvin Þór var síðan áfram á Íslandi í nokkrar vikur eftir að tímabilinu lauk til að hitta fjölskyldu og vini og nýtti einnig tímann til að jafna sig eftir veikindi sem er ekki óalgengt að gerist eftir að fólk hefur verið að æfa í háfjallalofti. Við vorum svo heppin að hitta á þennan magnaða íþróttamann áður en hann fór aftur til Bretlands og náðum að smella af honum mynd með bikarana tvo sem hann hlaut fyrir að vera kosinn Íþróttakarl Akureyrar fyrir árið 2023.

Framundan hjá Baldvini Þór er enn meiri undirbúningur fyrir sumarið. Hann æfir í Leeds þar sem æfingahópurinn hans og þjálfari eru staðsettir. Hann stefnir ótrauður áfram í að ná lágmarki til að komast á EM og síðan á Ólympíuleikana í París í sumar í 5.000 metra hlaupi.

ÍBA óskar Baldvini Þór góðs gengis í undirbúningi fyrir komandi átök og hlökkum til að fylgjast áfram með þessum magnaða íþróttamanni.