ÍBA 75 ára

Íþróttabandalag Akureyrar, ÍBA, fagnar 75 ára afmæli í dag en bandalagið var stofnað þann 20. desember 1944.  Starfsemi bandalagsins er blómleg sem aldrei fyrr og mörg járn í eldinum hjá stjórn og framkvæmdastjóra. 

Í febrúar í fyrra var ný íþróttastefna samþykkt og vinna bandalagsins fer að miklu leyti í að fylgja þeirri stefnu en vinna við stefnuna var í höndum íþróttafélaga bæjarins, auk þess sem almenningur og kjörnir fulltrúar lögðu sitt af mörkum.

12. október sl. var stór dagur í sögu ÍBA en bandalagið fékk þá aðild að Ungmennafélagi Íslands ásamt Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþróttabandalagi Akraness. Þetta var samþykkt á 51. sambandsþingi UMFÍ að Laugarbakka með nær öllum greiddum atkvæðum.  Innganga ÍBA í UMFÍ opnar á mörg tækifæri í því augnamiði að efla enn frekar íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu. Þá er orðið brýnt að vinna að framtíðarsýn fyrir íþróttahéröðin og finna leiðir til að styðja betur við starf í nærumhverfi barna og unglinga þannig að starf í íþróttum verði áfram jafn mikivægur þáttur í daglegu lífi okkar allra.  

Þá erum við afar stolt af því að ÍBA er nú Fyrirmyndarhérað ÍSÍ en bandalagið hlaut þessa gæðaviðurkenningu á jólaformannafundi ÍBA þann 5. desember síðastliðinn.  Fyrirmyndarhérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar og er ÍBA fjórða íþróttahéraðið sem hlýtur þennan heiður.

Undanfarin misseri hefur stjórn ÍBA sett aukið púður í fræðslumál til aðildarfélaga. Undanfarna mánuði hafa mörg námskeið og fyrirlestrar verið í boði fyrir aðildarfélög ÍBA og má þar nefna fyrirlestur um næringu og árangur í íþróttum, Nóra og Felix námskeið, auk þriggja fyrirlestra um Jákvæð Samskipti í íþróttum sem Pálmar Ragnarsson hélt.

Annað úr starfseminni í stuttu máli:

- Búið að greiða nú þegar 2.500.000kr í ferðastyrk vegna landsliðskeppnisferða úr nýja regluverki Afrekssjóðs Akureyrar.
- 6.500.000kr rekstrarstyrkjum hefur verið skipt og greitt út til aðildarfélaganna sem ekki hafa sérstakan rekstrarsamning við Akureyrarbæ.
- Í lok október kom framkvæmdastjórn ÍSÍ til Akureyrar og fundaði stjórn ÍBA með henni ásamt bæjarstjóra.
- Ný heimasíða ÍBA var opnuð á dögunum. 
- Undirbúningur fyrir Alþjóðaleika unglinga er hafinn en þeir fara fram næsta sumar í Ungverjalandi og eru fyrir ungmenni á aldrinum 12-15 ára.

Framundan er svo hátíðarviðburðurinn Íþróttamaður Akureyrar sem fer fram 15. Janúar nk. kl. 17:30 í Hofi og vonar ÍBA að við sjáum sem flesta bæjarbúa þegar kjöri Íþróttakonu og Íþróttakarls 2019 verður lýst.

ÍBA óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.