Hermann Sigtryggsson 90 ára

Hermann Sigtryggsson og Haraldur Sigurðsson
Hermann Sigtryggsson og Haraldur Sigurðsson

Heiðursfélagi ÍBA, Hermann Sigtryggsson, fagnar 90 ára afmæli í dag.  Hermann hefur komið að íþróttamálum nánast allt sitt líf en hann hóf störf sem íþróttakennari aðeins 17 ára gamall í Eyjafirði.  Hann hóf feril sinn sem slíkur hjá UMSE og varð síðar framkvæmdastjóri þess.

Hermann starfaði síðar lengi sem íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar eða á tímabilinu 1963-1996. Frá þeim tíma var hann fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og móttökustjóri hjá bænum eða til ársins 2001 þegar hann lét af störfum 70 ára að aldri.

Hermann var gerður að heiðursfélaga ÍBA á 60 ára afmæli bandalagsins árið 2014.  Þess utan hefur hann hlotið fjöldann allan  af viðurkenningum fyrir starf sitt í íþróttahreyfingunni og er hann m.a. heiðursfélagi ÍSÍ og KA ásamt því að hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar árið 2007 fyrir framlag sitt til æskulýðs- og íþróttamála.

Það er ljóst að Hermanni verður seint fullþakkað sitt óeigingjarna framlag til íþrótta á Akureyri. 

ÍBA færði Hermanni blómvönd í tilefni dagsins og óskar honum innilega til hamingju með stórafmælið.

Hermann Sigtryggsson heiðursfélagi ÍBA