Frábær þátttaka aðildarfélaga ÍBA

Hressir þátttakendur á setningarathöfninni á Sauðárkróki
Hressir þátttakendur á setningarathöfninni á Sauðárkróki

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram í blíðskapar veðri á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Þáttaka var góð og mættu rúmlega 1.000 ungmenni á aldrinum 11 til 18 ára sem spreyttu sig í hinum ýmsu íþróttagreinum. Gert er ráð fyrir að 4.000 til 5.000 manns hafi mætt í bæinn til að taka þátt í mótinu, foreldrar, forráðamenn og systkini þátttakenda. Flestir keppendur komu af Norðurlandinu góða en heimamenn í UMSS áttu vinninginn í fjölda þátttakenda eða 185 talsins og við hjá ÍBA komum þar á eftir með 121 keppanda.

Öll umgjörð mótsins var til fyrirmyndar og aðstaðan á Sauðárkróki frábær. Boðið var uppá 18 keppnisgreinar og fjölda annarra greina sem allir þátttakendur gátu mætt í og prófað.

Boðið var uppá hina ýmsu viðburði alla helgina með tónlistarfólki og skemmtikröftum, sem dæmi mætti fótboltasnillingurinn Andrew Henderson á svæðið og sýndi snilli sína í fótafimi í Freestyle Football og landsliðsfólk í fimleikum sýndi frábæra takta.  

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Borgarnesi um verslunarmannahelgina árið 2024 og getum við strax farið að hlakka til þess.

Við hjá ÍBA þökkum kærlega fyrir frábært mót.