Endurnýjun á viðurkenningu ÍBA sem Fyrirmyndahérað ÍSÍ

Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA og Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ v…
Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA og Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ við afhendingu viðurkenningarinnar á íþróttahátíð Akureyrar. Mynd: Þórir Tryggvason

Þann 5. desember 2019 hlaut ÍBA gæðaviðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarhérað sambandsins. Á þeim tíma hafði mikil vinna verið lögð í að hljóta þessa viðurkenningu og bar þáverandi framkvæmdastjóri, Helgi Rúnar Bragason, hitann og þungann af þeirri vinnu. Á Íþróttahátíð Akureyrar í Hofi þann 31. janúar hlaut ÍBA síðan endurnýjun viðurkenningarinnar sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ, afhenti Geir Kristni Aðalsteinssyni formanni ÍBA viðurkenninguna. 

Þess má geta að 11 af 20 aðildarfélögum ÍBA eru með viðurkenningu frá ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélög.  Það eru fleiri félög en í nokkru öðru íþróttahéraði hvort sem litið er til tölunnar eða hlutfalls.

Formaður ÍBA, Geir Kr. Aðalsteinsson, segir fyrirmyndarhéraðstitilinn vera bandalaginu mikilvægur,  „Við gerum miklar kröfur á aðildarfélög okkar um að allir ferlar, bókhald og annað utanumhald rekstursins standist skoðun og við sem regnhlíf yfir íþróttastarfið á Akureyri þurfum að leiða með góðu fordæmi.  Það fara miklir fjármunir í gegnum íþróttahéruð í formi styrkja og rekstur skrifstofa og því mikilvægt að ferlar séu gegnsæir og skýrir.  Ábyrgð okkar er einnig mikil þegar kemur að t.d. lögum og reglugerðum, verkferlum í eineltis- og kynferðismálum, siðareglum og eftirliti með íþróttafélögum.  Þar hefur gæðakerfið, sem fyrirmyndarhéraðsviðurkenningin er, hjálpað okkur mikið. Ég vil þakka Helgu Björgu Ingvadóttur, framkvæmdastjóra okkar, fyrir gott og mikið starf við þessa endurnýjun, sem og Viðari Sigurjónssyni hjá ÍSÍ sem hefur verið allur að vilja gerður við að leiðbeina okkur og ráðleggja í undirbúningi fyrir þessa endurnýjun okkar sem fyrirmyndarhérað ÍSÍ.“