Arna Sif Ásgrímsdóttir er Íþróttamaður Akureyrar 2012

Kjöri á íþróttamanni Akureyrar 2012 var lýst í hófi á Hótel Kea fyrr í dag. Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Þór og fyrirliði Íslandsmeistara Þórs/KA í knattspyrnu, varð fyrir valinu og hlýtur sæmdarheitið íþróttamaður Akureyrar 2012. Rannveig Oddsdóttir, íþróttamaður UFA, varð í öðru sæti í kjörinu og Guðmundur S. Guðlaugsson, íþróttamaður Bílaklúbbs Akureyrar í þriðja sæti.


Arna Sif Ásgrímsdóttir er fædd 1992. Við tímamót og miklar breytingar á liði Þórs/KA eftir keppnistímabilið 2011 ákvað Arna Sif að halda tryggð við uppeldisfélagið og standa vaktina áfram. Veturinn notaði hún skynsamlega til að efla sig og bæta með velgengni liðsins efst í huga. Var til fyrirmyndar innan og utan æfinga og stefndi leynt og ljóst að því að sigla liði sínu í efsta sætið.


Arna Sif tók við stöðu fyrirliða liðsins og tók á sig nýtt hlutverk með nýrri stöðu á vellinum. Hún færði sig af miðjunni yfir í hjarta varnarinnar, sem síðan fékk á sig langfæst mörkin í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar. Hún spilaði einnig hverja einustu mínútu í deildinni og skoraði 2 mörk. Fyrirliðinn gerði sér lítið fyrir og sigldi liði sínu örugglega í höfn og landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli sem Akureyringar hafa eignast í knattspyrnu kvenna.
Arna Sif Ásgrímsdóttir er fyrirmyndarleikmaður og leiðtogi sem þrátt fyrir ungan aldur hefur spilað 114 leiki í efstu deild og bikarkeppnum fyrir Þór/KA og skorað í þeim 22 mörk. Þar fyrir utan hefur hún leikið 39 landsleiki með U23, U19 og U17 og skorað í þeim 5 mörk ásamt því að vera komin í 40 manna A-landsliðshópinn.
Tilnefndir_til_Ithrottamanns_Akureyrar_2012
Úthlutun úr Afrekssjóði Akureyrarbæjar
Við athöfnina í dag voru jafnframt undirritaðir styrktarsamningar milli Akureyrarbæjar og þriggja íþróttafélaga fyrir hönd sex einstaklinga, sem hljóta styrki úr Afrekssjóði Akureyrarbæjar. Þetta eru Íþróttafélagið Þór vegna Söndru Maríu María Jessen, Skíðafélag Akureyrar vegna Maríu Guðmundsdóttur, Sigurgeirs Halldórssonar og Brynjars Leós Kristinssonar, og Ungmennafélag Akureyrar vegna Hafdísar Sigurðardóttur og Rannveigar Oddsdóttur.


Heiðursviðurkenningar Íþróttaráðs Akureyrar
Íþróttabandalag Akureyrar veitti jafnframt fjórum einstaklingum heiðursviðurkenningar fyrir störf þeirra að málefnum tengdum íþróttum. Þetta voru þau Anna Rebekka Hermannsdóttir, Kári Árnason, Magnús Jónatansson og Hanna Dóra Markúsdóttir.

heidursvidurkenningar IRA
Anna Rebekka Hermannsdóttir
Anna Rebekka er fædd árið 1954, dóttir hjónanna Hermanns Sigtryggssonar og Rebekku Guðmann. Hún hefur víða komið að íþrótta- og félagsstarfi á Akureyri. Árið 1976 útskrifaðist hún frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og síðar kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands. Anna Rebekka hefur verið kennari við Grunnskóla Akureyrar frá árinu 1976.
Hún var á árunum 1977-1988 yfirþjálfari hjá Fimleikaráði Akureyrar sem hún tók þátt í að stofna ásamt Þresti Guðjónssyni og sat í stjórn Fimleikaráðs.
Anna fékkst einnig við danskennslu unglinga og fullorðinna, m.a. í gömludansaklúbbnum Sporinu, og var með sýningarhópa sem sýndu víða á Norðurlandi.
Anna sinnti skíðakennslu við Skíðaskólann í Hlíðarfjalli á veturna, var á sumrin þjálfari í frjálsum íþróttum hjá KA og UMF Dagsbrún og kenndi í íþróttaskóla fyrir börn. Auk þess var hún með sundkennslu á sumarnámskeiðum á Akureyri og Dalvík
Á árunum 1994-2011 kenndi Anna kvennahópum líkamsrækt hér í bænum stjórnaði hlaupahópnum Kjarnakonum og það leiddi hana að Kvennahlaupi ÍSÍ .
Árið 2008 tók Anna þátt í, ásamt fleirum, að koma á verkefninu Göngum saman hér á Akureyri. Hópur þessi styrkir með fjáröflun og söfnunum rannsóknir í þágu brjóstakrabbameins og er enn að.
Anna hlaut árið 1996 silfurmerki ÍSÍ fyrir uppbyggingu í íþróttum kvenna. Hún hefur ávallt lagt sig alla fram og drifið aðra með sér.


Kári Árnason
Kári er fæddur 1944 í Hólabraut 17 á Akureyri.  Hann byrjaði að spila fótbolta um 10 ára aldur og lék á fullorðinsárum í framlínunni hjá ÍBA til 1973, en þá lagði hann skóna á hilluna. Kári var efnilegur knattspyrnumaður og honum stóð til boða að fara út sem atvinnumaður til St. Mirren í Skotlandi, en hann valdi frekar að gerast íþróttakennari.
Kári varð bikarmeistari með ÍBA 1969 og  spilaði 11 landsleiki í knattspyrnu. Hann var m.a. þátttakandi í hinum fræga 14-2 landsleik við Dani. Fæstir leikmanna Íslands komu heim með liðinu eftir þann leik en Kári var einn af þeim fáu og fékk afhentan ,,njóla“ , eins og hann orðaði það, við heimkomuna.
Kári stundaði líka frjálsar íþróttir og var öflugur stangarstökkvari og sjálfsagður í allar boðhlaupssveitir KA vegna mikils hraða.
Eins og áður sagði er Kári íþróttakennari frá Laugarvatni en þaðan útskrifaðist hann 1963.  Fyrsta veturinn var hann á Hólum í Hjaltadal en kenndi síðan íþróttir við Barnaskóla Akureyrar og svo sameinaðan Brekkuskóla í  meira en fjóra áratugi.  Nánast allan tímann kenndi hann í íþróttahúsinu við Laugargötu. Þar var hann með fimleikaflokk í mörg ár, og í mörg sumur þvældist hann um bæinn með fótboltapoka á bakinu og þjálfaði stráka í fótbolta.
Í dag spilar Kári badminton og gengur á fjöll.  Hann hefur til að mynda gengið meira en tvö hundruð sinnum á Súlur.


Magnús Jónatansson
Magnús Jónatansson er fæddur á Akureyri árið 1943 og var strax fjölhæfur íþróttamaður sem keppti í fótbolta, ¬handbolta og körfubolta á sínum yngri árum.
Lengstan keppnisferil átti Magnús með meistaraflokki Þórs í körfubolta og fótbolta og var hann einn af lykilmönnum  hjá Þór og síðan ÍBA og var hann lengi vel fyrirliði í báðum liðum. Á árunum 1965-1970 spilaði hann 5 landsleiki með A-landsliði Íslands í fótbolta.
Árið 1969 varð ÍBA bikarmeistari í fótbolta eftir frækinn 3:2 sigur á Skagamönnum í úrslitaleik á Melavellinum í Reykjavík. Í fjölmiðlum fékk Magnús mikið hrós fyrir framgöngu sína í úrslitaleiknum og komst blaðamaður Tímans svo að orði: „...ef Akureyringar ættu að þakka einhverjum einstökum leikmanni  sigurinn þá er það Magnús Jónatansson, fyrirliði liðsins, sem á þær þakkir skildar. Hann var áberandi besti maður liðsins og vallarins, sívinnandi og ódrepandi í dugnaði sínum, leikmaður sem hefði átt að fá tvo verðlaunapeninga fyrir sinn leik.“
Að loknum knattspyrnuferlinum starfaði Magnús sem knattspyrnudómari og eftirlitsdómari á Norðurlandi fyrir KSÍ til fjölda ára. Einnig þjálfaði hann knattspyrnu hjá Magna, Leiftri og Þrótti Neskaupstað svo eitthvað sé nefnt.
Magnús hefur alltaf verið mikill Þórsari og vann meðal annars mikið við þrettándabrennur félagsins og uppbyggingu núverandi íþróttasvæðis Þórs.
Síðastliðin 25 ár hefur Magnús svo, ásamt gömlum félögum sínum, stundað golf sér til mikillar ánægju.


Hanna Dóra Markúsdóttir
Hanna Dóra hóf snemma að æfa fimleika, en það var henni ekki nóg og hóf hún að aðstoða við þjálfun í fimleikum 14-15 ára gömul. Hún sótti mörg námskeið í þjálfun og dómgæslu og vegna mikils áhuga og drifkrafts var hún 17 ára orðin einn af aðalþjálfurum í Fimleikafélaginu og yfirþjálfari fimleika hér á Akureyri um tvítugt.
Þegar dóttir Hönnu Dóru byrjaði að æfa knattspyrnu í yngri flokkum Þórs hófst áralangt starf hennar þar. Hún var ötul við að fylgja liðinu eftir í leiki og á öll mót þegar því var við komið.  2004 hóf Hanna Dóra afskipti af meistarflokki kvenna í knattspyrnu hjá Þór og síðar Þór/KA. Þar vann hún gríðarlega mikið og gott starf við að bæta umgjörð kvenfólksins hjá félaginu allt til loka árs 2011.
Það er ekki síst henni að þakka að knattspyrna kvenna á Akureyri er á þeim stalli sem hún er um þessar mundir.
Hanna Dóra hefur einnig tekið að sér störf fyrir Knattspyrnusamband Íslands og er í landsliðsnefnd fyrir A og 21 árs landslið kvenna og einnig í unglinganefnd kvenna vegna U-17 og U-19 ára landsliðanna.
Hanna Dóra hefur verið meira en hinn dæmigerði sjálfboðaliði og hefur alltaf verið tilbúin að leggja sitt af mörkum hvort sem vel eða illa hefur gengið