Afsökunarbeiðni

Stjórn ÍBA og SA vill í einlægni biðja Emilíu Ómarsdóttur og aðra hlutaðeigandi sem og fjölskyldu hennar velvirðingar á ónærgætinni nálgun og viðbrögðum við athugasemdum sem gerðar voru við óviðeigandi framkomu þjálfara Listhlaupadeildar árið 2018.

Gefin var út yfirlýsing í september 2018 þar sem m.a. var sagt: “...að engar sannanir eða merki voru um að þjálfari listskautadeildarinnar hafi brotið siðareglur eða mismunað iðkendum”. Það var því miður ekki raunin og þegar málið var skoðað nánar þá kom í ljós að hann áreitti Emilíu á óviðeigandi hátt. Fyrir það var hann áminntur og hætti hann sjálfur sinni þjálfun hjá félaginu stuttu seinna. Með faglegri viðbrögðum hefði verið hægt að draga úr sársauka og þjáningu þeirra sem að málinu komu og auðvelda lausn máls. Þrátt fyrir að á þeim tíma er málið kom upp væru ekki til verkferlar sem auðvelt var að styðjast við og fylgja, þá breytir það ekki því að það er alltaf á ábyrgð stjórnarfólks í íþróttahreyfingunni að leysa mál með þeim að hætti að þau valdi sem minnstri vanlíðan þeirra sem misrétti eru beittir. Af þessu höfum við dregið lærdóm, auk þess sem íþróttahreyfingin öll hefur sett sér betri reglur og verkferla, m.a. með stofnun embættis samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Við heitum því að fylgja þeim leiðbeiningum og þeim línum sem nú hafa verið lagðar í þeim vandasömu málum sem upp geta komið innan íþróttahreyfingarinnar, með það að leiðarljósi að öllum líði sem best og geti stundað sínar íþróttir í öruggu umhverfi.