53. sambandsþing UMFÍ á hótel Geysi í Haukadal

Sambandsþing UMFÍ fór fram um síðastliðna helgi á Hótel Geysi í Haukadal. Sambandsþing UMFÍ er æðsta vald í málefnum UMFÍ. ÍBA átti þar átta fulltrúa. Um er að ræða eitt fjölmennasta þing í sögu UMFÍ en um 180 manns ásamt gestum voru saman komin á setningu þingsins síðastliðinn föstudag. Allir fulltrúar sambandsaðila UMFÍ eiga sæti á þinginu, þó mismarga fulltrúa eftir stærð.

Á þinginu fóru fram allskonar áhugaverðar umræður, nefndarstörf og málstofur og kosið var um hin ýmsu mál. Að margra mati var stærsta tillaga þingsins sú tillaga sem vinnuhópar ÍSÍ og UMFÍ hafa unnið að í sameiningu um skiptingu á afrakstri lottós á landsvísu. Tillagan felur í sér að komið verði á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum víðsvegar um landið sem munu þjónusta íþróttahéruðin í landinu með samræmdum hætti. Af lottógreiðslum til UMFÍ fari 15% til reksturs svæðisskrifstofa og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri. Með þessari samvinnu íþróttahéraða og svæðisskrifstofa um allt land má búast við bættri skilvirkni íþróttahreyfingarinnar í heild. Tillagan er í eðli sínu sú sama og hafði verið samþykkt á þingi ÍSÍ í vor. Tillagan var síðan samþykkt einróma á þingi UMFÍ nú um helgina. Breytingarnar munu taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, meðal annars með vísan til farsældarlaga.

Ný stjórn UMFÍ var kosin á þinginu. Jóhann Steinar Ingimundarson var sjálfkjörinn formaður stjórnar en þrettán aðilar kepptust um þau tíu sæti sem í boði eru í stjórn og varastjórn. Þau sem fengu kosningu til aðalstjórnar voru Guðmundur Sigurbergsson, Gunnar Þór Gestsson, Gunnar Gunnarsson, Málfríður Sigurhansdóttir, Ragnheiður Högnadóttir og Sigurður Óskar Jónsson. Til varstjórnar voru kosin Ásgeir Sveinsson, Guðmunda Ólafsdóttir, Hallbera Eiríksdóttir og Rakel Másdóttir.

Haukur Valtýsson fyrverandi formaður UMFÍ og heiðursfélagi ÍBA var gerður að heiðursfélaga UMFÍ ásamt Guðmundi Kr. Jónssyni. Þeir fengu af því tilefni afhendan heiðursfélagakross UMFÍ sem er jafnframt æðsta heiðursmerki samtakanna. Þeir hafa báðir verið öflugir í félagsstörfum sínum fyrir íþróttahreyfinguna og eru vel að þessu merki komnir. Þess má einnig geta að Haukur hefur verið sæmdur nær öllum þeim heiðursviðurkenningum sem hægt er að hljóta innan íþróttahreyfingarinnar fyrir störf sín og við hjá ÍBA erum afar stolt af Hauki og þakklát fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu íþrótta á okkar svæði og á landinu öllu.

Fjórir aðilar voru heiðraðir með gullmerki UMFÍ en það voru að þessu sinni Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson, Garðar Svansson, Gissur Jónsson og Lárus B. Lárusson.

Hvatningaverðlaun UMFÍ voru veitt vegna sjálfboðaliða Tindastóls, verkefna Þróttar sem nær til nýrra markhópa og að lokum Special Olympics hjá Haukum. Þeir sambandsaðilar sem hlutu viðurkenningarnar eru Ungmennasamband Skagafjarðar, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar.

Einnig má geta þess að hún Birna Baldursdóttir varaformaður ÍBA var kosin matmaður sambandsþingsins og fékk afhendan farandgrip sem hún mun varðveita fram að næsta þingi þegar nýr matmaður verður kosinn. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða o.fl. Birna stóð algjörlega uppúr að mati dómnefndar enda hreinsaði hún upp af matardiskum kollega sinna og stóð svo sannarlega undir nafni sem matmaður/kona þingsins. Við erum afar stolt af þessum verðlaunum og Birnu okkar enda mikið keppnisfólk í hópnum en hún Birna er ekki þekkt fyrir annað en sigur þegar kemur að keppnum þótt ungmennafélagsandinn hafi að sjálfsögðu svifið yfir vötnunum alla helgina.

Við hjá ÍBA þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til næsta þings. Það má með sanni segja að það séu bjartir tímar framundan í íþróttahreyfingunni.